TÖFRANDI HEIMUR

Gagnrýni sem birtist í Morgunblaðinu  27 september 2008


Fyrir tveimur árum var Ingibjörg Jónsdóttir með persónulega og heilsteypta sýningu í Listasafni ASI og sýndi þar að hún er ein okkar áhugaverðustu veflistamanna. Nú kemur hún aftur á óvart með grípandi innsetningu í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, undir titlinum Samsíða heimar.


Ingibjörg sýnir annars vegar veggverk og hins vegar hefur hún byggt og breytt sýningarsalnum í lokað rými fyrir innsetningu sem vex eins gróður upp með veggjunum. Þræðir í nokkrum litum, sumum sjálflýsandi, eru undnir upp á mjó kefli sem fest eru saman í sköpun viðkvæmrar byggingar.


Í þessu aflokaða rými hefur Ingibjörg sett upp þriggja mínútna ljósasýningu sem minnir á skiptingu dags og nætur. Litur veggjanna breytist í mismunandi birtu, einnig litir þráðanna á keflunum og skuggarnir lifna og hverfa á víxl. Innsetningin minnir á lífrænan gróður, strúktúr barnaleikfangs, eða vísindalega tilraun en tengingin við vefnað er einnig sterk, nokkuð sem verður til á löngum tíma.

Tíminn er áleitinn þáttur í verkum Ingibjargar og hér renna saman áreynslulaust samtíminn og hefðirnar, auk þess sem tími áhorfandans verður órjúfanlega hluti af verkinu.


Ég var svo heppin að vera stödd í salnum um leið og hópur leikskólabarna sem undu sér vel í þessum töfrandi heimi, svo vel að þegar ég fór var enn verið að biðja um meira,“Bara einu sinni enn“.og gaf það verkinu aukið líf um leið og hér kom í ljós að innsetningin virkar bæði hreint sjónrænt séð og einnig sem tilefni til vangaveltna.Texti í sýningarskrá ýtir undir hið síðarnefnda.


Veggverk ofið úr steinflögum,pergamenti og nælonþræði er síðan forvitnilegt verk, nútímalegt og sígilt í senn. Sýningin gefur til kynna breidd í vinnubrögðum listakonunnar og ekki hefði verið verra að sjá meira.


Ragna Sigurðardóttir




 

cv