SAMSETTAR ERFÐIR, SJÁLFSPILANDI PÍANÓ, FÍNOFNAR HIMNUR OG HAMSKIPTI

Lesbók Morgunblaðsins 11 Febrúar 2006



Oddný Ævarsdóttir ræddi við hana um vefnað og tengsl hans við bókmenntir, heimspeki og tónlist, um verkin og skynjanir.



Um hvað snýst uppsetning  verkanna í Listasafni ASÍ?

Uppsetningin á þessum verkum snýst mest um birtuna. Í vefnum er endurskinsefni og birtan í sýningarsalnum er stöðugt breytileg vegna stóra gluggans. Verkið er því í ófyrirsjáanlegu endurskini og verður vonandi sífellt að koma í ljós. Eins og manneskjur sem manni þykir vænt um, það er ekki hægt að sjá þær í heild sinni, maður sér þær alltaf í nýju ljósi.


Verkin þín örva ekki eingöngu skynjun með augunum og huganum heldur líka með eyrunum. Eru einhver innri tengsl myndsköpunar þinnar við tónlist?

Síðan ég byrjaði að vinna í myndlist hef ég búið með flygli og svo hlusta ég mikið á tónlist á meðan ég vinn. Mínir áhrifavaldar eru miklu frekar bókmenntir og tónlist heldur en önnur myndlist, þótt ég hafi auðvitað orðið fyrir áhrifum af myndlist líka.


Væri hægt að tala um að vefast á við einhvern eða vefa við einhvern eða er vefnaðurinn leikur á einleikshljóðfæri?

Já, í vissum skilningi er hann það. Vefnaður sem iðnaður er ekki bundin einveru en sem listamaður vel ég að vinna í algerri einveru á endanum.

Enn maður er samt aldrei einn um vefinn. Það eru svo margir þræðir sem flækjast inn í líf manns frá öðrum. Sumar hugmyndir eru þannig að  mann langar til að vefa þær inn í sína uppistöðu. Hugmyndir sumra eru þræðir sem trufla mann alltaf og á jákvæðan hátt. Til  dæmis er franski heimspekingurinn Michel Serres hugsuður sem ég get alltaf tengt við.


Mætti segja að þú æfir hugsanir og jafnvel tónlist inn í efnið?

Oft verður eitthvað sem ég upplifi, heyri eða les til þess að vekja tilfinningar eða kenndir sem koma einhverju ferli af stað sem síðan fer að snúast eins og spírall, vinda upp á sig eins og kefli, skapar óreiðu sem fæðir síðan af sér eitthvað nýtt og þá verður ekki aftur snúið.


Michel Serres segir að í hvert sinn sem líffæri eða tækni er frjáls undan skylduvirkni sinni, þá opnist fyrir nýja skynjun, nýja hugsun sé og forsemda fyrir uppfinningum. Nú er vefnaður mjög flókið og tæknilegt ferli, hvernig sérðu samspil uppistöðunnar og þess sem er ófyrirsjáanlegt, þess óþekkta sem byggist á öðru en lögmálum vefjarins? Hvernig vinnurðu með iðntengingu vefstólsins?

Mér finnst saga miðilsins vera mjög áhugaverð og ekki verra að vefnaður hafi oftast verið iðntengdur. Fyrstu gataspjöldin sem voru notuð í iðnaði voru t.d. fundin upp af franska vefaranum Jacard. Jacard vefstóllinn sem er frægt fyrirbrigði olli straumhvörfum. Gataspjöldin voru síðan útfærð á ýmis verkfæri, þar á meðal sjálfspilandi píanó. Fyrstu tölvurnar keyrðu einnig á þessu kerfi þó að það heyri sögunni til í tölvuiðnaðinum eins og flestu öðru. Sjálf vinn ég alla mína vinnu nú orðið á tölvutækan vefstól, nota fartölvuna mína í forvinnu á munstrum og stjórna uppistöðunni í gegnum tölvuheila sem er tengdur vefstólnum. Þannig að nýjar leiðir sem hafa verið fundnar upp létta fyrir listamönnum og hönnuðum sem vinna við vefnað. En um leið er þessi þróun fyrirsjáanleg og það þarf annars konar sköpun að koma til. Mér verður oft hugsað til DNA – uppbyggingar mannsins og tengsla skapandi þáttar hvers lífs. Hver manneskja er afar flókinn vefnaður. Erfðirnar eru eins og uppistaðan gefnar fyrirfram en reynsla, aðstæður og eigin vilji ívafið. Það er nauðsynlegt að nýta bæði heilahvelin og hafa tengingarnar þar á milli virkar ef vinna við vefnað á að vera skapandi, eins og hjá  hljóðfæraleikara eða tónskáldi. Reyndar held ég að þær manngerðir sem hefðu fyrr á öldum unnið við vefnað kjósi að starfa sem tölvuforritarar á okkar dögum. Það er margt í hugsanamynstri þessa fólks svipað og veraldarvefurinn er e.t.v. rökrétt framhald.


Hvers konar hugsanamunstur eru það eiginlega?

Ég vil ekki alhæfa neitt, en mér virðist sem fólk sem velur að vinna við tölvuforritun og fólk sem velur vefnað sem starf eigi erfitt með að ganga inn í fyrirfram ákvörðuð form eða ramma en verði öllu heldur að afmarka starfsvið sín sjálfir og séu því kannski svolítið sérlundaðir, en þarna er ég nú komin út á mjög hálan ís...


Nú þegar er eins og sé endurvakin áhugi á handverki í listum, er þá hægt að sjá það sem jákvætt að handverk hafi verið sett innan sviga um tíma?

Allir tímar bera meginstrauma. Það er eðlilegt að listnemendur hafi þurft tíma til kynna sér möguleika tölvunnar og upplýsingatækninnar. Sjálf skil ég ekki þá hræðslu sem sumir bera í brjósti, að handverkið sé að tapast. Ég tel til dæmis rétt að kenna frekar myndlist og almenna tvívíða og þrívíða hönnun í stað þess að eyða tíma nemenda í mjög sérhæfa tæknivinnu, það rímar betur við samtímann. Sérhæft nám á að koma ofan á almennt nám. Heimurinn hefur skroppið saman hin síðari ár. Eitt vefnaðarverkstæði vel tækjum búið fyrir alla Norðurlandaskólana er nóg. Þangað myndu þá safnast saman þeir nemendur sem eru illa haldnir af vefnaðaráhuga og margir góðir kennarar og gestakennarar. Það kæmi eitthvað áhugavert út úr slíku. Í stað þess að allir læri örlítið í öllu og komist aldrei fram úr byrjunarörðuleikunum í neinu.


Heldurðu að svo fáir í samtímanum velji sér vefnað sem farveg sköpunar sinnar vegna þess hversu flókinn hann er, kannski af hræðslu við að tapa þræði uppfinningaseminnar?

Vissulega eru víða fordómar um að sá farvegur sé í sjálfu sér heftandi. En ég álít að það veiti mér persónulega einmitt frelsi og endalausa möguleika að þurfa í vissum skilningi að umgangast vefstólinn og allar hans tæknilegu hliðar. Þetta er hins vegar afskaplega seinlegt ferli sem krefst óendanlegrar þolinmæði. Ég tel að enginn ætti að velja sér þessa leið ef hann getur hugsað sér að fást við eitthvað annað. Það þarf mikla innri staðfestu og ástríðu fyrir viðfangsefninu til að réttlæta fyrir sjálfum sér slíkt val. Ég hef upplifað stundir þar sem mér hefur fundist ég vera föst í eigin vef og jafnvel rifið mig lausa nokkur augnablik. En ég hef alltaf fengið á tilfinninguna að ég væri að svíkja sjálfa mig og varla getað beðið með að byrja aftur. Eins og vefnaðurinn segði: Ég sleppi þér ekki fyrr en þú hefur velsignað mig. Nú þegar ég hef færni til að hlaupa um vefinn minn eins og könguló langar mig ekki að yfirgefa hann, hvað sem síðar verður.


Ertu nokkuð hrædd um að Aþena, gríska gyðja vefnaðar og visku komi með ugluna sína og breyti þér í könguló eins og hún gerði við Aröknu?

Hún er löngu búin að því!


Manstu hvers vegna og hvenær þú valdir þér vefnaðinn sem þína leið í listsköpun?

Ég man þegar ég fékk að vefa í fyrsta skipti,ég var barn að aldri og í minningunni er sú stund nánast dulræn upplifun. Þar mætti ég sjálfsagt mínum örlagakosti ef svo má segja.


Þegar ég fékk að fara í skjalasafnið þitt á vinnustofunni og sá þar allar rannsóknirnar, allar mynsturpælingarnar og pjötlurnar, þá fannst mér það vera eins og að koma inn til fræðimanns sem er að undirbúa sitt Magnum Opus með minnismiða og útstrikaðar bækur um allt. Og í báðum tilfellum spyr maður sig: Hvað gengur þeim til? Hvað liggur þeim svona á hjarta?

Ég lít á listsköpun mína sem rannsóknarvinnu.  Aðaltakmark rannsóknarinnar er að fá vefinn til að hljóma í samtímanum. Hún er samt ekki mjög fastmótuð, ég er svo hrædd um að ef hún verði of niðurnjörvuð yfirsjáist mér eitthvað mikilvægt eða áhugavert. Ég geri ótal tilraunir með efni, innri spennu á milli efnanna og bindinganna í vefnum sjálfum. Vefnaðurinn er einnig ágætis leið til að rannsaka sjálft sköpunarferlið. Það er til dæmis athyglisvert að Bauhaus – mennirnir, Johannes Itten sem skrifaði Art of Color og Josef Albers sem skrifaði Interaction of Color hófu að kanna liti á nýjan hátt í gegnum vefinn. Verkstæði Ittens lá nálægt vefnaðarverkstæðinu og hann kenndi þar marga áfanga. Litablöndun verður mjög áþreifanleg þegar einn litur vefst inn í annan. Áhugi Ittens á vefnaði kviknaði þarna og eftir Bauhaus – tímabilið stofnaði hann sitt eigið vefnaðarverkstæði. Josef Albers var hins vegar kvæntur Anni Albers þeirri merku konu, vefara, prentlistamanni og hugsuði. Ég tel hana hafa haft mikil áhrif á málverk hans þó eflaust ætli einhverjir áhrifin á hinn veginn. Það er hins vegar svo augljóst fyrir hvern þann sem hefur skilning á vefnaði að sjá hvernig landið liggur.


I sumum verka þinna má sjá tóm blöð og sjálf skrifarðu texta á sýningunni. Er skrift mikilvæg þínum verkum? Skrifarðu mikið?

Nei ekki mikið en ég skrifa hugleiðingar á litla minnismiða sem ég set síðan í pappakassa á vinnustofunni minni. Ég vinn ekki með skriftina áfram heldur vinn úr hugsuninni í vefnum. En ég heillast líka af skriftinni sem slíkri, sem táknum og líka af nótum. Vefstóllinn er eins og strengjahljóðfæri nema það koma ekki út lög, hann er líka svolítið eins og prentverksmiðja en enginn texti. Kannski vef ég bara umslögin utan um bréfin...


Tengsl vefnaðar og bókmennta hafa löngum verið náin, vefnaður er þrálátt minni í goðsögnum og öðrum sögum, hvernig sérð þú þessi tengsl? Lestu sjálf bækur með vefnað í huga?

Það get ég ekki sagt. Ég les mikið og mjög margvíslegt efni og reyni alltaf að nálgast hverja bók með opnum huga og út frá þeim forsendum sem ég tel að liggi að baki. En maðurinn er sveipaður hinum auðmjúka dúki frá vöggu til grafar. Við tökum ungabarnið og reifum það nánast frá fyrstu stundu. Allt lífið veitir klæðið okkur vörn og við leiðarlok sveipum við hinn látna áður en jörðin tekur gjöf sína aftur. Þannig tengist vefurinn jörðinni, lífinu, dauðanum og sögunum sem sagðar eru um þetta allt.


Íslenskir fræðimenn grípa oft til orðaforða úr búskapnum, en til dæmis franskir kollegar þeirra nota gjarnan hugtök úr vefnaðarfræðum þegar þeir reyna að lýsa hugsun og tungumáli. Hvers vegna heldurðu til dæmis að hin erfiða afbyggingarhugsun leiti til vefjarins um hugtök?

Þeir sem eru að læra nýjar aðferðir við vefnað og finna upp mynstur, stunda gjarnan hina svokölluðu munsturgreiningu. Þá fara þeir ofan í vefinn og skoða mynstrin og greina þá jafnframt gerð þeirra , myndunarferlið.  Ætli það sé ekki eitthvað svipað nálgun þeirra sem reyna að skilja hvernig hugsunin og mynstrin í henni hafi orðið til? Mér finnst stundum eins og tilurðasaga verkanna sé eins og micro saga af tilurðasögu þeirra mynstra sem búa til heiminn, búa til skynjun okkar og hugsun. Mér er tamt að sjá heiminn eins og margþættan vefnað. Þegar ég hugsa til dæmis um útþenslu heimsins sé ég fyrir mér þrívíðan vef sem vex stöðugt í allar áttir. Ég ímynda mér bindimunstur sem er í senn ótrúlega einfalt og flókið. Vegna þess hve þráðagerðin er margvísleg, efnisgerðin, litirnir, grófleikinn og þéttleikinn raðast saman á kaótískan hátt munum við aldrei geta greint munstrið, bindinguna sjálfa sem heldur öllu saman.


Efnin sem þú notar eru mörg hver lífræn, hver eru tengsl þín við efnin?

Ég nota ham dýra í sum verkin á þessari sýningu. Og ég hef alltaf haft unun af því að vinna með lífræn efni og rannsaka möguleika þeirra. Þau eru viðkvæm eða sterk og stundum hvort tveggja í senn. Ég ber mikla virðingu fyrir efnunum sem ég vinn með, legg mig eftir að hlusta á hvað þau hafa að segja, leysa þau undan sínum fyrri skyldum og gefa þeim nýtt hlutverk í nýju samhengi. Oft þarf að leggja mikið á sig til að nálgast þau efni sem geta verið áhugaverð í rannsókninni hverju sinni . Ég panta þræði alls staðar að úr heiminum og geymi síðan spotta ef ske kynni að einn daginn myndi sending berast of seint eða ekki og þá hef ég litlu afgangsspottana til að vinna með svo rannsóknin þurfi ekki að stoppa, svo ferlið stöðvist ekki .


Undarlega veran hans Kafka, Odradek kom upp í hugann þegar ég sá stóra verkið þitt...

Já, Odradek var einmitt einhverskonar tvinnakefli og það voru margir litlir bútar bundnir saman og rúllaðir upp á keflið. Eins og þrá manns er fíngerð og flókin og oft með hnútum í...


Nú eru keflin innan í verkinu þínu, hvað eru þau að gera þar?

Keflin eru eins og litlar púpur, odradek púpur! Þau eru vafinn inn í fíngerðan silfurþráð sem myndar þannig spíral utan um keflið. Silfurþráðurinn er svo fínn að hann minnir á mannshár. Þegar þráin sem býr í púpunum hefur þroskast opnast púpan, þráin breiðir út vængina og flýgur.


Má líta á þessi verk þín sem ham þinn og að nú hafi orðið hamskipti? Getur þú þá ímyndað þér hvernig næsti hamur þinn verður, úr hverju þú vefur hann?

Ég geri ráð fyrir að næsti hamur verði áframhaldandi þróun af tveimur yngstu verkunum. Þar eru ýmis atriði sem mig langar að kanna nánar. En nú tekur við tími sem ég mun nýta til frekari tilrauna og þróunar svo það er í raun ómögulegt að segja fyrir um framhaldið, það kemur í ljós.


Oddný Eir Ævarsdóttir




 

cv