OPNAR DYR
Erkitýpur, Listasafn ASÍ
Fréttabladid, 4 febrúar 2011
Ingibjörg Jónsdóttir hefur vakið töluverða athygli síðustu ár með persónulegum og fáguðum textílverkum. Andstætt hefðbundnum vefnaði eru verk hennar þrívíð og þegar nánar er að gáð eiginlega í fjórum víddum, en hugmynd um tímann er nær áþreifanlegur hluti verka hennar. Ingibjörg tekur þátt í uppbroti textílhefðarinnar sem færðist mjög í aukana á síðari hluta síðustu aldar.
Í Arinstofu má sjá verk eftir Ingibjörgu sem eru kunnugleg frá fyrri sýningum, meðal annars veggverk þar sem óljóst glittir í upprúllaða nótnaskrift sem ofin er inn í vefnaðinn. Efnisnotkun er fínleg og tilfinning fyrir einhverskonar pergamenti sterk, tilfinning fyrir strekktri og stífaðri húð sem tengist jafnt líkamanum sem handritahefðinni. Líkami, tími og skrásetning eru undirliggjandi þættir.
Á efri hæð hefur Ingibjörg komið fyrir stórri innsetningu þar sem uppistaðan er gamlar hurðir, að öllum líkindum innfluttar frá Evrópu, undir titlinum Erkitýpur. Orðið merkir almennt séð einhvers konar upprunalegt tákn fyrir persónu, hugmynd eða frumgerð sem allir þekkja. Ríkulega má kafa í þetta hugtak og ítarlegur texti eftir þau Oddnýju Eir Ævarsdóttur og Jón Proppe fylgir sýningunni. Textinn auðgar sýninguna en þó er vel hægt að njóta innsetningar Ingibjargar án hans. Hér hefur hún tekið víraflækju og tengt allar hurðirnar með vírum. Það er eins og hún hafi virkjað þær.Hurðirnar sjö verða tákn fyrir lífshlaup, fyrir síendurtekin próf lífsins þar sem dyr opnast og lokast í sífellu og eitt leiðir til annars. Þær eru hlaðnar innri spennu, augljóst er að eitt skammhlaup gæti sett allt í háaloft. Þetta er mögnuð innsetning.
Ragna Sigurðardóttir