OFRIÐ ÚR TÍMA OG SÖGU

Gagnrýni sem birtist í Morgunblaðinu 17 Februar 2006


Ingibjörg Jónsdóttir sýnir í Ásmundarsal en hún hefur ekki verið mjög virk á sýningarvettvangi undanfarin ár, þetta er fjórða einkasýning hennar á alllöngum tíma. Hún hefur þó augljóslega ekki setið auðum höndum og texti með sýningu hennar gefur til kynna leitandi og frjóa nálgun við myndvefnaðinn.


Ingibjörg nefnir sýningu sína Fínofnar himnur og rímur um tímann. Hún greinir frá tilurð titilsins í texta sínum þar sem hún vitnar til rómverska heimspekingsins Lúkretíusar frá því örlítið fyrir Krist og til franska 20. Aldar heimspekingsins Michel Serres. Lúkretíus fjallaði á frumstæðan hátt um ljós- og hljóðbylgjur sem himnur og Serres um skynjun mannsins og samspil ytri og innri heims. Það er síðan áhorfandans að tengja þessar tilvísanir við myndvefnað Ingibjargar sem er unninn úr silfri, silki, járni, vaxi,pappír og hami dýra. Hluti verkanna er úr endurskinsefni sem gefur þeim fallega áferð og leikur með birtuna.


Það áhugaverðasta við vefnað Ingibjargar er þó ef til vill sú tilfinning að listakonan leitast beinlínis við að vefa tímann í áþreifanlegt form. Þetta er gefið í skyn, til að mynda með því að nota eitthvað sem virðist vera gamalt nótnahandrit og önnur efni sem gætu átt sér sögu sem við vitum ekki lengur hver er. Verkin eru sum marglaga og hálfgegnsæ lög leggjast yfir bakgrunn sem minnir á vegg með rakaskemmdum, þannig koma saman þættir úr sameiginlegri menningu og persónulegum tilvistarleifum og skapa nýtt verk fellt í eigið mynstur. Þetta eru ekki beinlínis falleg verk en þau búa yfir fegurð og slík fegurð er langtum áhrifaríkari og snertir áhorfandann dýpra en leikur að yfirborði. Fegurð þeirra felst í tilfinningunni fyrir leitandi huga, forvitni um lífið og mynstur þess sem við fáum ekki greint eins og Ingibjörg segir sjálf í viðtali.


Hin sterka frásögn sem býr að baki þessum verkum ljær þeim bókmenntalega eiginleika, án þess að þau séu uppbyggð af orðum. Ingibjörg kemur hér fram með heilsteypta og vandaða sýningu og ferskan, persónulegan og afar vel mótaðan myndvefnað, sannkölluð tíðindi á þessum vettvangi.


Ragna Sigurðardóttir
 

cv