INNBYGGT TÁKNAMÁL VEFJARINS
„Erkitýpur“ Vefnaður og blönduð tækni.Listasafn ASÍ, Arinstofa og Ásmundarsalur.
Birtist í Morgunblaðinu 5 febrúar 2011
Sýning Ingibjargar Jónsdóttur í Listasafni ASÍ er tvískipt. Í Ásmundarsal er stór sviðsett innsetning sem samanstendur af mörgum gömlum hurðum og víravirki sem tengir þær saman í rýminu. Hurðir eru hér notaðar sem erkitýpískar táknmyndir fyrir skil á milli heima, opnanir og lokanir í guðdóminum, sögunni eða sálinni. Talið er með vísun í orðasifjafræði að hurðir hafi upphaflega verið ofnar eða fléttaðar úr trjágreinum og dýpkar það enn frekar merkingasvið táknmyndarinnar og tengir innsetninguna verkunum í Arinstofu sem eru meira í ætt við hefðbundin vefnaðarverk.
Hin „hefðbundnari“ vefnaðarverk í Arinstofu eru þó alls ekki neitt hversdagsleg nema síður sé. Efniviðurinn er m.s. örfínn silfurvír, silkiþráður, pergament og niðurskornar nótur sem spilað er með örþunnri grisju gerðri úr ananastrefjum. Yfirbragð verkanna er lágstemmt um leið og forsöguleg minni í bland við líkamlega nánd hleður þau orku. Í anddyri má sjá undir gleri einskonar sýnisbók í aðferðafræði Ingibjargar þar sem ofin eru fínleg DNA mynstur í samanskreppandi þræði ásamt silfur og silkivefnaði. Pergamentið er náttúrlega lífrænn húðvefur og klæði úr þræði er það efni sem við setjum næst húðinni.
Vefurinn er ein elsta táknmynd sköpunar á borð við leirkerasmíði og útskurð; „ÉG hef ofið þig í móðurlífi“ segir Guð við Davíð í sálmunum og vefurinn ásamt öðrum textíl er einnig notaður sem merkingarhlaðnar táknmyndir í Biblíunni sem og öðrum eldri sem yngri trúarbrögðum. Nærtækt er fyrir okkur Íslendinga að vísa í sagnir um valkyrjur og örlagavefnað hverskonar, þá ekki síst hinn gróteska vefnað sem sagt er frá í Darraðarljóðum þar sem vopn hauskúpur og innyfli eru uppistaða vefjarins. Vefnaðurinn er í eðli sínu rytmískur og ritúalískur, tengist þjóðfélagsstöðu, kveðskap, sagnaljóðum, spádómum og álögum. Vefnaður er oft hlaðinn tilfinningum eins og þegar Áslaug gefur Ragnari Loðbrók verndarserk sem hún óf úr sínum eigin gráu hárum sem endurgjald fyrir silfurofinn serk sem Ragnar gaf henni í byrjun þeirra sambands.
Sýning Ingibjargar snertir streng forsögulegrar vitundar og dregur athygli að heimspeki efnisheimsins. Efniskennd og handverk njóta sín einstaklega vel á sýningunni og ótrúlega eðlisfalleg verk í Arinstofu gera sýninguna ógleymanlega.
Þóra Þórisdóttir