HARÐIR VEFIR

Gagnrýni sem birtist í Morgunblaðinu 15 Apríl 1989


Í Listhúsinu Nýhöfn við Hafnarstræti heldur um þessar mundir ung listakona, Ingibjörg Jónsdóttir að nafni, sína fyrstu einkasýningu. Hún sýnir þar tólf lágmyndir, sem maður hneigist til að álíta skúlptúra og veflist í bland svo og níu teikningar.


Ingibjörg mun fyrst og fremst líta á sig sem vefara og vissulega eru myndir hennar ekki ósvipaðar ýmsu því sem getur að líta á Norrænum veflistartvíæringnum til að mynda.


Hún útskrifaðist úr veflistadeild MHI árið 1980, en í millitíðinni stundaði hún einnig nám í hefðbundnum skúlptúr og vefnaði í þjóðskólanum í Mexíkó, - verður að telja það allóvenjulegan námsferil, en auk þessa stundaði hún framhaldsnám í vefnaði í skólanum fyrir brúkslist í Kaupmannahöfn í eitt ár (1983-84).

Það er þannig næsta víða sem dugmiklar ungar listaspírur leita fanga, er svo er komið.


Verk Ingibjargar bera í senn svip af traustu námi hennar svo og áhrifum frá ýmsu í samtímalist, sem er auðvitað eins og vera ber. Uppistaðan í verkum hennar eru steinplötur, grágrýti, blágrýti, lín og hrosshár, svo að ef nefna á þetta veflist, verður að segjast, að listakonan hefur á köflum allhart á milli handanna.

En kannski er það nú ekki aðalatriðið, heldur sú nýjung sem hér kemur fram í efnis- og formhugsun, og þó helst að þetta eru á stundum bráðfalleg og svipmikil myndverk, sem myndu sóma sér vel í réttu umhverfi. Einkum vísa ég hér til hinna einfaldari samsetninga svo sem nr.3 „Næturljóð“, nr.7 „Teikn“, sem er lítil en snjöll, svo og „Bergmál“ (9), „Fljótið“ (10) og  „Draumsteinn“ (12).


Allar þessar myndir virka sem hreinar og beinar lágmyndir í einfaldleika sínum og hreinleika og staðfesta næma kennd fyrir skúlptúr og samruna ólíkra efnisþátta.


Og jafn stutt og er í skúlptúr í þessum myndum kæmi mér ekki á óvart að sjá hreinan og kláran skúlptúr frá hendi listakonunnar fyrr en varir. Kjarninn í þessum myndverkum er í öllu falli mótunarlist af hárri gráðu. Ekkert ætti og að vera til fyrirstöðu að rækta hreinan skúlptúr og vef í sínu upprunalegasta formi á sama hátt og ýmsir hafa bæði málað og ofið.


Í heild er þetta falleg sýning er fer vel í mig og býr yfir krafti og vaxtarmagni.


Bragi Ásgeirsson




 

cv