FÍNOFNAR  HIMNUR OG RÍMUR UM TIMANN

Texti úr sýningarskrá árið 2006


Rómverski  epikúristinn, heimspekingurinn og skáldið Karus Lúkretíus (ca 90-55) segir í fræðiljóði sínu De Rerum Natura (Um eðli hlutanna) að frá öllum lífverum og efnislegum hlutum streymi stanslaust fínofnar himnur. Hann líkir þessum himnum við ham ýmissa skriðdýra sem þau skilja við sig öðru hverju. En gagnstætt hamskiptum dýranna sem  taka drjúgan tíma, telur hann himnurnar falla stöðugt og hratt og ómögulegt sé að greina þær eða aðskilja þar sem þær séu svo fíngerðar. Þegar þessar himnur mæti síðan skilningarvitum okkar, augum, eyrum o.s.frv. skapist innri mynd hjá þeim sem skynji. Raunar er um að ræða útlistun sem byggir á efnishyggjukenningum Forn-Grikkja og gerir greinamun á himnunum og þeim áhrifum sem þær skapa:,ljósi, hita o.s.frv. Lúkretíus leggur áherslu að himnurnar streymi fram og hamri á okkur eins og vatnsfljót. Skáldið er að lýsa því sem við þekkjum í dag sem hljóðbylgjur og ljósbylgjur.


Í um eðli hlutann lýsir Lúkretíus jafnframt þeirri skoðun sinni að fyrir upphaf tímans hafi atóm heimsins fallið eftir beinum brautum og með jöfnum hraða. Á óþekktum tíma og stað hafi síðan eitt atóm  hrokkið af braut sinni og rekist á annað atóm. Þannig hafi orðið til hvirfill sem hafi síðan myndað spíral. Tilurð spíralsins taldi Lúkretíus hafa verið hina fyrstu eiginlegu formmyndun og beri að líta á sem lögmál sköpunar. Þessa reglu væri síðan hægt að yfirfæra sem gárumyndun á sléttum fleti.


Franski heimspekingurinn Mechel Serres (f.1930), sem fjallað hefur ítarlega um Lúkretíus tekur upp þráðinn og segir í riti sínu Skilningarvitin fimm: „Heimurinn er eins og stafli af líni, stór hrúga af felldum efnisbútum“.


Hann heldur áfram á öðrum stað: „Strangt til tekið vitum við harla lítið um skynjunina, hún er eins og lokaður kassi. Við þekkjum það sem setjum inn og það sem tökum út en ekki sjálfa umbreytinguna frá einu til annars. Í annan endann rennur inn hinn hlutlægi heimur en út úr hinum endanum streyma óhlutlægar upplýsingar, tilfinningar, skoðanir o.s.frv. Þessi ímyndaði kassi skynjunar stendur bæði á milli mannsins og heimsins og innra með manninum í sjálfvitund hans“.


Myndverk mín eru fínofnar himnur en eru gagnstætt fínofnum himnum Lúkretíusar vel sýnilegar berum augum, þær streyma heldur ekki hratt fram eins og ljósbylgjur, þvert á móti. Miklu fremur fæðast þær hægt og tilurð þeirra minnir oft á einhverskonar hamskipti. Þær eru unnar úr efnum sem geta samkvæmt menningu okkar og sögu verið merkingarbær í sjálfu sér: Silfri, silki, járni, vaxi, pappír og hami dýra en eru þó jafnframt valin fyrir efnis og eðlisfræðilega eiginleika sína. „Input“ samkvæmt skynjunarkassa Serres. Þær hafa einnig sumar hverjar í sér fólgna innbyggða breytu sem kemur fram við mismunandi birtu: þræði sem endurvarpa ljósi og önnur efni sem lýsa í myrkri. Við sjáum því mismunandi myndir eftir þeim birtuskilurðum sem eru hverju sinni er við berum þær augum. „Output“ skynjunarinnar verður mismunandi eftir því umbreytingarferli sem á sér stað í skynjunarkassa hvers og eins.


Ingibjörg Jónsdóttir
 

cv