FÍNOFNAR HIMNUR

Gagnrýni sem birtist í Fréttablaðinu 2 Mars 2006


Það er ýmislegt í tíðarandanum sem bendir til nýrra tíma – enn og aftur . Ný fagurfræði hefur legið í loftinu í talsverðan tíma. Tilfinningin er ekki endilega bundin við yngsta fólkið í grasrótinni. Þau ráða að sjálfsögðu miklu um stefnu straumanna. Ungt fólk allra tíma hefur mestu þörfina fyrir hreyfingar og breytingar. Þannig hefur það bara alltaf verið. Strauma og þræði hinnar nýju rómantíkur seinni ára rekjum við stundum til gömlu Austur-Evrópu, sérstaklega gömlu Austur-Berlínar. Þeir straumar hafa verið að berast hingað á síðustu misserum. Um er að ræða ákveðna tegund fegurðarupplifunar sem er falin í vanefnum og forgengilegum efnum. Enduruppgötvun á formum og mynstrum í hina stóra og smáa frá sjöunda og áttunda áratugnum frá þessu svæði eru áberandi. Á þeim tíma var ekkert pop í gangi í Austur-Berlín eins og í „frelsinu“ hér fyrir vestan heldur hélt módernisminn í einhverri mynd þar áfram. Þetta má sjá á kaffihúsum í Prenzlauerberg í dag, til dæmis á kaffihúsinu Wohnzimmer í því hverfi. Þetta má sjá hér í Reykjavík á kaffihúsum eins og Hljómalind á Laugaveginum og kannski sérstaklega Babalú á Skólavörðustígnum.


Ég nefni þetta vegna þess að efst á holtinu á Listasafni ASÍ er í gangi sýning fram yfir helgina sem smellpassar inn í þessa fagurfræði. – Þó er ekkert víst að listamaðurinn sem þar sýnir og er alls ekki af yngstu kynslóðinni hafi haft það í hyggju eða hafi hugmynd um það. Það er algert aukaatriði. Hún heitir Ingibjörg Jónsdóttir og er talsvert langt síðan hún hefur sýnt hérna, þannig að fyrir mér virkar hún sem splunkunýr listamaður.Verkin eru nefnilega að formi til módernisk eins og í gömlu Austur-Berlín. Þau hafa ritma og harmóníu – eru  vandlega kompóneruð og virka fersk sem er sérkennilegt vegna þess að litirnir eru jarðlitir, brúnir, gulir og rauðir, hreint ekki hreinir. Unnið er með alls kyns efni sem virka ódýr og forgengileg þó það þurfi alls ekkert að vera svo í raunveruleikanum. Tíminn talar sterkt til mín eða ryklag sögunnar, lag ofan á lag er áleitið. Natnin við handverkið sjálft tælir mann svo að verkinu nær og nær – furðu sterk tálbeita þessa dagana.


Þessi sýning er athyglisverð margra hluta vegna. Hún sýnir til dæmis uppgang myndvefnaðar sem datt út úr skólakerfinu að einhverju leyti við stofnun Listaháskólans sem vildi ekki líta á sig sem „handverksskóla“ og kenna deildir myndlistarinnar við aðferðir og verklag. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að hefja merkið upp á nýtt. Hér er á ferðinni listamaður sem sýnir hvernig nýju lífi er blásið í ævaforna vinnuaðferð og verklag sem fylgt hefur manninum nánast frá upphafi verkmenningar.Það sem gleymist verður nýtt.


Goddur
 

cv