SAMSETTAR ERFÐIR, SJÁLFSPILANDI PÍANÓ, FÍNOFNAR HIMNUR OG HAMSKIPTI

Lesbók Morgunblaðsins 11 Febrúar 2006




AÐ FINNA RÉTTU LEIÐINA

Ingibjörg Jónsdóttir opnar sýningu í LISTASALNUM NÝHÖFN

Viðtal sem birtist í morgunblaðinu 8 Apríl 1989



Ingibjörg Jónsdóttir vefari opnar sýningu í dag á lágmyndum í Listasalnum Nýhöfn við Hafnarstræti. Myndir Ingibjargar eru ofnar úr bronsþræði og bakgrunnur verkanna er gjarnan sneið úr blágrýti svo andstæður hins glóandi bronsvefnaðar og kalda íslenska steins verða eitt af sérkennum verka Ingibjargar.


Sýning Ingibjargar í Nýhöfn markar vissulega nokkur tímamót á ferli hennar sem listamanns, því þetta er fyrsta einkasýning hennar frá upphafi, þó Ingibjörg hafi tekið þátt í samsýningum, bæði hér heima og erlendis. Verk Ingibjargar hafa þó ekki komið fyrir almenningssjónir á Íslandi frá því vorið 1984 er nokkrir veflistamenn stóðu að samsýningu í Gerðubergi á Listahátíð. Er því næsta víst að marga fýsir að sjá hvert árin sem liðin eru hafa fært listamanninn Ingibjörgu Jónsdóttur. Eftir að ég kom heim árið 1985 fór ég að vinna með ný efni og þróa nýjar aðferðir. Þetta hefur bara tekið þennan tíma og ég var ekki tilbúin að sýna fyrr,“ segir Ingibjörg um ástæður fyrir þessu langa hléi á sýningarhaldi, a.m.k. sé gerður samanburður við sýningargleði margra íslenskra listamanna.


Ingibjörg stundaði nám í veflistadeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands  1975-80 en á þeim tíma tók hún sér reyndar árshlé og dvaldi í Mexíkó og nam skúlptúr. Síðar stundaði hún framhaldsnám í vefnaði í Skolen for Brugskunst í Danmörku og flutti ekki heim fyrr en í árslok 1985. „Ég óf aðallega úr pappír áður en ég kom heim,“ segir Ingibjörg. „Ég var reyndar byrjuð að nota bronsþráðinn en á allt annan hátt en í myndunum sem ég sýni núna. Ég held að myndirnar hafi orðið miklu þyngri eftir að ég fluttist heim.“


„Áður en ég kom heim fór ég í ferð til Egyptalands og það var skrýtin lífsreynsla fannst mér,“  segir Ingibjörg. „Ég fór með lest niður Nílardalinn og andstæðurnar sem blöstu við til beggja handa voru sláandi. Út um lestargluggann öðrumegin mátti sjá frjósaman fljótsbakkann en á hina hliðina var óendanleg eyðimörkin. Þetta vakti upp vangaveltur hjá mér um hversu lífið er stutt en eilífðin löng. Svo þegar ég var komin á áfangastaðinn og fór að skoða allar grafirnar úti í eyðimörkinni þá snérist þetta einhvern vegin við. Öll þessi listaverk sem höfðu varðveist í sandinum í margar aldir virtust snúa á þennan forgengileika,“ segir Ingibjörg. Og hún heldur áfram: „Hlutirnir virðast alltaf innihalda andstæðu sína. Til þess að geta lifað verða þeir að geta dáið. Og til þess að geta dáið verður að lifa. Þetta finnst mér mjög sterkt og það eru kannski þessar andstæður sem ég er að fást við í verkunum mínum núna. Bæði í efninu kopar og steini og einnig hugmyndunum að baki þeirra.


Sástu þarna áþreifanlegan tilgang með því að skapa?

Já að vissu leyti. Annars hef ég alltaf fundið tilganginn. Listamaðurinn stendur alltaf einn, það er enginn sem hann getur spurt ráða, hann verður alltaf að taka sínar eigin ákvarðanir og fara sínar eigin leiðir. Það getur ekki verið á annan hátt.


Að fara sínar eigin leiðir . Er ekki hættan sú að listamaðurinn í dag  sé bara að reyna að vera öðruvísi en allir hinir. Vekja á sér athygli?

Mér finnst ekki vera neinn tilgangur með því í sjálfu sér. Listin hlýtur alltaf að geyma brot úr tímanum sem við lifum á. Listamaðurinn þarf að hafa kjark til að velja sér leið. Kjark til að róa á mið þar sem enginn hefur leitað á áður. En hann þarf líka alltaf að hlusta á tímann sem hann lifir á. Það er alltaf eitthvert brot af listinni sem lifir áfram. Það lifir kannski einmitt vegna þess að það inniheldur einhverja spegilmynd af sköpunartíma sínum.


Gerist þetta þá ómeðvitað? Þarf listamaðurinn ekki að hafa neinar áhyggjur af gildi verka sinna, því það hlýtur hvort sem er að vera falið í þeim?.

Já, ég held að það sé ómeðvitað. En listamaðurinn þarf auðvitað stöðugt að gera sér grein fyrir hvar hann stendur og það getur verið mjög sárt – og erfitt. En það hljóta alltaf að vera einhver tengsl við tímann sem lifað er á, það lifir enginn í tómarúmi. Listamaðurinn þarf engu að síður að finna sína eigin réttu leið og vera trúr sjálfum sér. Við hverja einustu mynd spyr maður sig hvort þetta sé rétta leiðin – stöðugt.“ Segir Ingibjörg Jónsdóttir sem sýnir nú í Listasalnum Nýhöfn.


Hávar Sigurjónsson




 

cv